(ég vil byrja á að benda hversu ótrúlega fórnfús ég er að skrifa þetta blogg, góðmennskan uppmáluð alveg!)
-Eftirfarandi er tekið úr dagbókinni minni sem ég hélt úti, svo þarna gætu leynst ýmisskonar óþarfa upplýsingar fyrir utanaðkomandi...... en só vott...
Föstudagur 27. júníBúdapest virtist fjarlægur draumur þar sem við strandaglóparnir (aka Bryndís og ég) sátum á Heathrow flugvelli. Icelandair seinkaði fluginu svo við misstum af tengifluginu til Búdapest. Eftir ótrúlegt streð, símtöl, væl og vesen tókst okkur að næla okkur í miða með kvöldfluginu. Að sjálfsögðu var því flugi líka seinkað og við lögðum ekki hausinn á koddann fyrr en 3 um nóttina, eftir nærri því 24 klst ferðalag. Og svo byrjaði þrælavinnan klukkan 9 morguninn eftir!
Drösluðumst í Mammút (mollið, athvarfið) að éta og svo beint í háttinn. Steinrotaðist um leið og ég lagðist útaf.
Laugardagur 28. júníAlexanderstæknitími í dag. Mjög áhugaverð tækni. Hef áður farið í svona tíma en það var hóptími með áherslu á öndunaræfingar. Hérna var einn kennari á hvern nemanda svo maður fékk ítarlegri innsýn í tæknina. Skipst var á að vinna annars vegar með sitjandi stöðu og hins vegar liggjandi. Í sitjandi stöðu snerti kennarinn ýmis liðamót og rétti úr manni og reigði mann, án allra átaka þó. Höfuðið er aðaláherslan. Það stjórnar frá hvirflinum hvert er farið í allar áttir. Þannig getur maður einbeitt sér að sem bestri stöðu í hreyfingu. Í liggjandi stöðu hreyfði kennarinn hendur, fætur og höfuð. Það var fáránlega erfitt að gefa eftir og vera alveg máttlaus. Sofnaði svona 700 sinnum á meðan tímanum stóð, var svo uppgefin eftir daginn. Svekk
Fórum á Contact Improvisation festival í tilefni 36 ára afmælis contact improv í því formi sem það er í dag. Hátíðin kallaðist einfaldlega CI36. Áhugaverðasta atriðið var verk með fjórum dönsurum og þremur þroskaheftum mönnum, tveir af þeim bundnir við hjólastól. Virkilega frumleg og skemmtileg hugmynd að nota hreyfihamlaða í contactdansi. Seinni partur sýningarinnar fólst í því að allir sátu í hring (dansarar og áhorfendur) umhverfis sviðið og svo urðu til 36 einnar mínútu dansar þegar fólk gekk inn í hringinn og gerði það sem þau töldu vera contact improv. Það gekk heldur brösulega að fá Bryndísi til að koma með mér og dansa en það hafðist á endanum. Spiluðum út á íslenska upprunann og létum eins og apakettir. Skemmtilegt að segja frá því að við vorum fyrsta "atriðið" sem fékk lófatak í lokin! Egóbúst....
Mánudagur 30. júníTakmark dagsins var að gera allt í floorworkinu og sofna ekki í Gyrokinesis tækni tíma. Hvorugt heppnaðist. Síðasti Gyrokinesis tíminn í dag, sem mér þótti mjög leiðinlegt því ég var loksins farin að ná hvernig þessi tækni á eftir að nýtast mér í dansinum. Eins með Alexanderstæknina. Takmark morgundagsins: Svolgra í mig vibbakaffið á hótelinu og gera allt í body conditioning.
Mikið er ég fegin að námskeiðið er haldið í öðru landi. Hér get ég labbað um á almannafæri lítandi út eins og skítur án þess að hitta nokkurn sem ég þekki. Ekki það að ég geri það ekki heima líka.
Þriðjudagur 1. júlíFór í dag að versla í Sansha (balletbúð). Keypti mér Grishko táskó sem ég er gjörsamlega fallin fyrir. Folkdans er yndislegt. Er samt komin með afskaplega undarlega marbletti á lærunum eftir klapp, slátt og stapp í tímunum. Þetta er samt svo ótrúlega skemmtilegt að nokkrir marblettir (sem minna meira á hræðilegan húðsjúkdóm en marbletti) eru alveg þess virði!
Hér í Ungverjalandi er maður sífellt blautur. Maður vaknar í svitabaði vegna hitans og sofnar með sturtublautt hárið. Þó ég drekki yfir 3 lítra af vökva á dag þarf ég samt aldrei að pissa því maður svitnar svo mikið. Geðveikt heitt, ég veit. Fór í ömurlegt nudd hjá konu sem hefur álíka mikinn mátt í höndunum og lamaður simpansi. Náði að gera flest í body conditioning þrátt fyrir ljóta verkinn minn í rifbeinunum. Vei fyrir mér!
Miðvikudagur 2. júlíFórum á magnaða þjóðdansasýningu! Karldansarnir voru miklu skemmtilegri en þeir sem kvenmennirnir fengu að dansa. Síðasti þjóðdansatíminn búinn, svekkjandi því ég var loksins farin að ná sporunum.
Fimmtudagur 3. júlíLászló var í stuði í dag. Hann var með ýmsar nýstárlegar aðferðir við að útskýra hlutina fyrir okkur. Til dæmis lyfti hann Ceciliu upp á axlirnar á Karli til að sýna hvað gerist ef Karl hallar sér of mikið aftur í fondu. Hún dettur. Nema László greip hana. Svo til að útskýra hvernig maður spottar í piruette þá lét hann mig bíta í bolinn sinn og hrista hausinn eins og hundur að drepa leikfang (eða annað dýr).
Kaffið í morgunmatnum bragðast eins og einhver hafi tekið lambaspörð, hellt sjóðandi vatni yfir og sett í bolla. Viðurstyggilegt drullukaffi. Nú fer ég og fæ mér úrvals Nescafé í GRoby (Bónus Búdapest)
Föstudagur 4. júlíSíðasti contact tíminn í dag. Vorum með contact jam þar sem við áttum að nota það helsta sem við höfðum lært í tímunum til að spinna eitthvað. Mér fannst það geðveikt. Væri alveg til í standa fyrir svona contact jammi heima. Veit samt ekki hvort contact líkist meira slagsmálum eða ástaratlotum. Sitt lítið af hverju kannski.
Laugardagur 5. júlíSushi. Gott. Om nom nom nom.
Pizza. Gott. Om nom nom nom.
Sofa. Gott. Zzzzzzzzzzz
Sunnudagur 6. júlíLászló svaf yfir sig í morgun svo það var ekkert floorwork. Ágætis frí frá bæði floorwork og pilates. Get ekki beðið eftir morgundeginum.
László á afmæli í dag. Harðneitar því í hvert sinn sem við spyrjum en við höfum áreiðanlegar heimildir (Ágnes, mohoho...) Keyptum köku á McDónalds og héldum surprise afmælisveislu í fundarherberginu á hótelinu. "Fundarherbergið" er afar undarlega innréttð. Veggirnir eru þaktir speglum og rauðum blikkljósum og svo hangir diskókúla úr loftinu. Gerðum dauðaleit að súlunni en fundum hana ekki.
Mánudagur 7. júlí (frídagurinn)
Ferðin til Balaton var æði. Einmitt afslöppunin sem ég þurfti. Lékum okkur eins krakkar í vatninu. Ellen, Karl og Johan voru með sirkustilraunir hægri vinstri sem var mjög skemmtilegt að fylgjast með.
Spurði László hvað hann héldi að væri að mér í rifbeinunum þar sem íbúfenóverdósin hennar mömmu voru ekki að virka. Hann nefndi tvennt. Annað hvort væri þetta vöðvi sem fests hefði milli rifbeinanna eða loft sem væri fast þar og ég þyrfti bara að bíða eftir að þetta poppaði út. Kósí!
Þriðjudagur 8. júlíÞað er út í hött hversu mikið maður hefur styrkst síðan ég kom. Svitnaði sama og ekkert í pilates tímanum og floorwork æfingarnar voru skyndilega pís off keik.
Mig langar í gælumink. Sá konu með einn í bandi í dag. Hann var sætur.
Miðvikudagur 9. júlíÞreyttur í hausnum og heilinn vill ekki taka við meiri upplýsingum. Tábergið, hásinarnar og kálfarnir vilja heldur ekki virka og þverneita að gera það ég ætlast til af þeim.
László hélt magnaða hvatningarræðu. Hann taldi upp nokkra sem honum þótti hafa gefist upp andlega, þ.e.a.s. gerðu allt nákvæmlega eins og þeim var sagt að gera en ekkert meira en það. Hann vildi hvetja okkur til að halda áfram að vinna eins og við höfðum gert í upphafi námskeiðisins og ýta okkur áfram eins langt og mögulegt var. Þessi ræða var einmitt það sem þreytti heilinn minn þurfti á að halda, þó ég hafi ekki verið ein af þeim sem hann taldi upp. Mér þykir svo vænt um László. Ég hálfpartin kvíði fyrir að fara og vita ekki hvenær ég fái að sjá hann aftur!
Fimmtudagur 10. júlíVaknaði, staðráðin í því að ég skyldi standa mig vel. Heppin að þvi leyti að ég valdi dag með án Pilates! Fannst mér ég standa mig ágætlega í floorworkinu. Nóra hrósaði mér fyrir orkuna í ballettímanum og Andrea fyrir að muna repertoire-ið. Dóra sáttur. Get samt gert betur í báðu. Á morgun skal ég rústa þessu í drasl....
Föstudagur 11. júlíFórum í fyrsta Graham tímann í dag. Guð minn góður hvað ég er komin úr öllu Graham formi. En Kati (G-kennari) er ótrúleg. Hún rétt nær mér upp að höku en þegar hún gerir æfingarnar á gólfinu er eins og hún lengist um helming. Alveg hreint mögnuð kona. Hún útskýrir hlutina svo vel og nákvæmlega. Af hverju hlutirnir eru svona og svona og hvað við eigum að hugsa til að ná þeim réttum. Eins og hvernig contraction líkist japönsku harakiri sjálfsmorðsaðferðinni.
og allir síðustu dagarnir eru eins. Hversu mikið mér var illt í hásinunum, að ég gæti ekkert á táskónum og ýmsar misgáfulegar pælingar.
-myndir seinna þegar Picasa hagar sér ekki eins og drulla!