Saturday, November 8, 2008

Spark í rassinn

Ég komst að svolitlu um sjálfa mig klukkan hálfþrjú aðfaranótt föstudagsins.

-Ég ætti helst ekki að vera að skrifa ritgerðir á þeim tíma
-Ég get bullað stanslaust út um rassgatið á mér um efni sem ég hef ekki hundsvit á
-Ég verð bitrari og fúlari eftir því sem líður á nóttina

Eftirfarandi eru lokaorð ritgerðarinnar. Svo slökkti ég bálreið á tölvunni og fór að sofa, blótandi samtíðarmönnum mínum í sand og ösku.

Samkvæmt Böðvari H. Steingrímssyni var það andleg óhollusta sem varð móður hans að bana. Andleg óhollusta sem Ríkið dældi í hana linnulaust gegnum tól andskotans, sjónvarpið. „Of mikil velsæld skapar vesæld.“ Við erum þiggjendur, tyggjendur, neytendur, þreytendur uppfullir af rusli og heyjum vonlaust vindmyllustríð við Tímann. Það þyrfti að drepa Tímann. Lífið í Rokklandi þolir engan tíma. Rokklendingar eru vélar. Vélar sem þarf að smyrja með óhóflegu sjónvarpsglápi og ruslfæði. Vélar sem eru svo djúpt sokknar í efnishyggjuna að ekkert annað kemst fyrir. Hver fer einn, afsíðis með sjálfum sér? Enginn. Það hugsar enginn lengur. Það þarf enginn að hugsa. Ekkert er lengur tært. Einhvern tímann hefur þó eitthvað verið tært. Fyrst það er gruggugt núna.

Hvaðan kemur tilhneigingin að horfa til baka þegar hart er í ári? Hvaða vit er í því að lifa í fortíðinni þegar samtíminn er jafnömurlegur og raun ber vitni? Ætlum við aldrei að læra af mistökum okkar? Sagan fer í hringi og sífellt er verið að reka fótinn í sömu misfelluna á gólfinu. Menn skammast sín fyrir samtímann. Finna honum allt til foráttu. Skáldin leggja hart að mönnum að líta til baka og sjá villu vegar síns. Og á meðan skáldin ydda skriffæri sín og kryfja söguna til mergjar, reyna að finna þessa misfellu sem orsakar ömurleikann, leika hinir nýríku lausum hala og grafa sér dýpri og dýpri gröf þar til þeir sjá hvorki tangur né tetur af misfellum fortíðarinnar.

Úff, mikið er gott að vera jafn æðisleg, sæt, gáfuð, fyndin og skemmtileg og ég sjálf!

No comments: