Ég sit bara og bíð eftir að íslensku fjölmiðlarnir ákveði að ekki sé lengur hipp og kúl að tala um kreppuna. Ég hef algjörlega óbeit á hvernig þeir taka á málunum. Óbeitin beinist að fjölmiðlum yfirleitt en ég hef alveg sérstakt dálæti á að láta þá íslensku fara í taugarnar á mér.
Íslenskur fjölmiðill: "Kæri herra Stjórnmálamaður sem skiptir engu máli, við fengum bara ekki að tala við þá sem gera það, þú skuldar íslensku þjóðinni svör og ég er hér til að krefja þig um þau!"
Herra Stjórnmálamaður: (orðagubb sem er yfirleitt á þessa leið) "Ágæti íslenski fjölmiðill. Að svo stöddu er hvorki staður né stund að fullyrða nokkuð (hahaha, ég ætla sko ekki að segja neitt!) þar sem viðræður standa yfir og aðilar sem koma að málinu (einhverjir merkilegri en ég) reyna að komast að niðurstöðu í þessu máli.
Íslenskur fjölmiðill: "Já, okei... (wtf?!)"
Herra Stjórnmálamaður: (Scoooooore!)
Af hverju í ósköpunum þykjast fréttamenn vera að krefja ráðamenn um svör í öðru hverju viðtali? Auðvitað er nokkrum sem á ótrúlegan hátt tekst það, en athöfnin "að krefja ráðamenn um svör handa íslensku þjóðinni" felst aðallega í því að skjóta beinskeyttu spurningaflóði á viðmælendur þannig að þeir standi eftir orðlausir eins og fávitar. Jújú, æðislegt. Þú gast troðið ummælum viðmælanda þíns aftur ofan í kokið á honum og hann getur enga björg sér veitt. Það er ekki að krefja fólk um svör, það heitir að "hafa rétt fyrir sér á opinberum vettvangi", sem sýnir bara fram á manns eigið ágæti en er í raun svo tilgangslaus atburðarás að það hefði allt eins mátt sleppa henni.
Í augnablikinu er í tísku að grafa upp börn sem "sáu kreppuna fyrir". Geðveikt, sýnum fram á vanhæfni "flokksdindlanna" (quote: Guðmundur Ólafsson) með því að finna börn sem hafa skoðun á kreppunni. Hvað er næst? Teikn frá náttúrunni? "Heimilisköttur í Garðabænum sá fyrir kreppuna!" Hann byrjaði að mjálma hástöfum og svo klukkutíma síðar varð Glitnir lýstur gjaldþrota, segir hin heimavinnandi húsmóðir, eigandi þessa forsjála kattar.
Ég bíð spennt.....
Tuesday, October 28, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)

1 comment:
Vá! Eins og talað út úr mínu hjarta bara um íslenska fjölmiðla yfirhöfuð. Ég er búin að blogga líka. Knúsles.
Post a Comment