Saturday, April 19, 2008

Heimsendaspámaðurinn

Þetta er sögz, vesgú, kthnxbai:



Staðsetningin

Ég stend úti við gangstéttarbrúnina með skiltið mitt og horfi hugsi á máv sem situr makindalegur á ljósastaur handan við götuna. Hann horfir græðgislega á brauðpoka sem ung kona með nokkur börn heldur á. Hann bíður færis og um leið og konan kastar brauðsneiðinni hendist mávurinn af stað á eftir henni. Hann þarf samt að etja kappi við tvo fugla viðbót í baráttunni um brauðsneiðina áður en hann nær að næla sér í hana. Hann flýgur aftur að ljósastaurnum þegar hann hefur lokið sér af, ánægður með sjálfan sig.

Himininn er grámóskulegur og skýin hanga dimm og drungaleg, það fer áreiðanlega að rigna þá og þegar.

Eldri kona gengur framhjá mér með lítinn dreng í eftirdragi. Konan virðir mig ekki viðlits, hefur örugglega ekki einu sinni tekið eftir mér, en drengurinn starir stóreygur og er við það að opna munninn en áður en nokkurt orð sleppur út fyrir varirnar áttar konan sig á hvað er að gerast, grípur hann í fangið og hraðar sér á brott. Við drengurinn horfumst í augu þangað til að þau hverfa úr augsýn. Ég sný mér aftur að götunni og gríp fastar um skiltið mitt.

Skiltið

Skiltið mitt er í sannleika sagt heldur tilkomulítið, fátæklegt á að líta, svona við fyrstu sýn. Það er ekkert sérstaklega stórt en fer vel í hendi. Einhvern tímann var það fagurrautt en tímans rás hefur liturinn dofnað og er í dag meira í ætt við grábrúnan heldur en rauðan. Það er líka heldur veðurbarið og brotnað hefur upp úr því á nokkrum stöðum sem gerir textann illskiljanlegan öllum öðrum en mér. Mér þykir samt óendanlega vænt um það og ég myndi ekki skipta á því og neinu öðru skilti í heiminum. Við skiltið höfum verið samferða um þó nokkurt skeið núna. Hvenær og hvernig leiðir okkar lágu fyrst saman er ég búinn að gleyma, mér finnst jafnvel stundum að það hafi alltaf verið við hlið mér, staðfast, mér til halds og trausts. Og muni alltaf verða mér við hlið, alveg þar til yfir lýkur.

Hann

Á nóttunni gefst enginn tími til svefns. Þegar ég lít til baka þá man ég eiginlega ekki hvenær ég festi svefn síðast. Á nóttunni er það sem ég geri mér sífellt betur grein fyrir því ég er varla eins og fólk er flest. Á nóttunni fyllist hugurinn af honum. Á nóttunni tekur hann yfir og hugurinn er ekki lengur minn eigin, ég verð aðeins auðmjúkur áhorfandi. Til að byrja með var erfitt að sætta sig við að vera ekki við stjórnvölinn, að leyfa einhverjum öðrum að taka við og hafa enga stjórn á hugsunum sem þjóta framhjá, bakvið augun í mér. En með tímanum dofnar stoltið enda stenst ég hann ekki og máttinn sem hann býr yfir.

Upplifunin

Ég gæti lýst því sem þannig að mér sé stungið í samband við hið óendanlega. En einhvern veginn verða öll orð of máttlaus til að lýsa þessari upplifun, ólýsanleg. Hann leyfir mér að sjá þá hluti sem eru öðrum huldir. Myndir og hljóð þjóta framhjá, birtast hver á fætur annarri og hverfa aftur jafnskjótt og þær birtust. Svona gengur það uns dagur rennur. Og enn á ný er ég sannfærður um að ég sé að þjóna mínum tilgangi. Ég er að gera réttan hlut og sá hlutur er mikilvægur partur af tilverunni.

Samastaðurinn

Ég á lítinn samastað á risinu í gömlu, yfirgefnu skrifstofuhúsnæði. Herbergiskytran mín er lítil, myrk og fúkkalyktin hefur tekið sér varanlega bólfestu í veggjunum og húsgögnunum. Einstaka sinnum sleppur einn og einn sólargeisli inn um lítinn gluggaræfil en ég er ekkert að fárast yfir því.

Endirinn

Af og til stend ég mig að því að efast. Ég stari út í tómið og efast, mannlegur. Ég vil ekki vera mannlegur. Ég vil líkjast honum, hafinn yfir allt og alla. Algjörlega óháður veröldinni. En á sama tíma er veröldin háð manni, þarfnast manns jafn innilega og maður sjálfur þarfnast einskis frá veröldinni. En þegar öllu er á botninn hvolft er í raun tilgangslaust að efast. Heimsendir er í nánd.



-kaflaskiptingar eru bara afsakanir svo maður geti byrjað samhengislaust á nýjum stað!

2 comments:

Linda said...

AHH ég þrái að vita hvað stendurá skiltinu!

Halldóra Eldjárn said...

hihihihihih, þar stendur: Linda má ekki vita!