Rithöfundurinn með úfið, ógreitt hárið, keðjureykjandi, pikkandi á ritvélina á milli þess sem hann rífur blaðsíður úr ritvélinni, gengur um í hringi í litlu, myrkvuðu herberginu og les upphátt textann. Kinkar annaðhvort sáttur kolli, brosir út í annað og kveikir sér í nýrri sígarettu eða kuðlar blaðinu saman, kastar í ruslakörfuna, rennir lófunum gegnum hárið og dæsir.
Brjálaði vísindamaðurinn sem hagræðir gleraugunum á nefinu, lyftir upp karöflu með grænum vökva og horfir á hana um stund. Tekur síðan upp aðra minni karöflu og byrjar skvetta úr henni í þá fyrri. Mikil sprenging og reykurinn gýs upp. Vísindamaðurinn lyftir upp karöflunni með báðum höndum og hlær illyrmislega.
Yfirkokkurinn sem gengur um eldhúsið, yfirlætislegur á svip, dýfir af og til smökkunarskeið í hina og þessa sósuna á meðan hinir kokkarnir bíða með öndina í hálsinum eftir dóminum. “Of sölt!”, “Of þunn!”, “Of soðin!” Kann að bera fram nöfn allra réttanna á lýtalausri frönsku og er sérfræðingur í eftirréttum á borð við soufflé og crémé brulée.
Stjórnleysinginn sem gefur skít í allt sem kemur honum ekki við og neitar að beygja sig undir hvers konar vald. Stendur fyrir háværum mótmælum gegn yfirvaldinu og óréttlætinu. Skiptir engu máli hverju hann klæðist, bara því sem honum áskotnast á hverjum stað. Engin plön fyrir framtíðina, eina sem skiptir máli er að vera frjáls undan oki yfirvaldsins.
Vínsmakkarinn sem ber korktappann úr flöskunni að nefinu og þefar hugsi á svipinn, hellir smá slurk í glas, lyftir glasinu gætilega til að skoða hvort vínið hafi réttan lit. Fær sér síðan lítinn sopa af víninu og veltir því um í munninum. Kinkar kolli til samþykkis eða fitjar upp á nefið með vanþóknunarsvip.
-sweet
Annars fór ég í tvær verslanir í dag og verslaði. Sem er óvenjulegt þar sem ég kaupi mér venjulega aldrei neitt.
Í Pennanum fann ég tvær bækur; Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl og Af ljóðum, ritstýrt af fyrrnefnum Eiríki. Líst mér ansi vel á báðar bækurnar og hlakka til lestursins.
Ætla samt fyrst að klára Glerhjálminn. Sú bók kom mér bæði á óvart og ég er ekki frá því að ég hafi orðið fyrir smá vonbrigðum (svona það sem af er bókinni).
Ég býst alltaf við of miklu af frægum bókmenntum, ætti kannski að halda mig bara við Andrés Önd, hann veldur mér aldrei vonbrigðum!
Svo lá leið mín í Skífuna, þar sem ég átti fimmþúsund króna inneign. Valið stóð lengi á milli Swan Lake - Tchaikovsky og Kind of Blue - Miles Davies.
Þangað til að ég rak augun í þessa snilld:

War of the Worlds: Tónlistin úr söngleiknum eftir Jeff Wayne. Alveg gúrkulega skemmtilegur diskur.
Svo hlustaði ég á Svanavatnið alla leiðina heim og þóttist vera Dmitry Yablonsky, sveiflaði höndunum án afláts og blístraði með.
Ég verð komin með sinaskeiðabólgu í fyrramálið.

2 comments:
Haha, ég myndi velja vísindamanninn!
Hey já, gleymdi að segja að ég er byrjaður að blogga aftur.... allavega að gera enn eina tilraunina til þess :P kíktu við ;) gamla góða blogcentral síðan www.blog.central.is/pezi_pera
Post a Comment