Tuesday, January 13, 2009

Draumur

1. sena
Maður stendur einn í skógi. Hann er hvítur og af honum stafar hvít birta. Umhverfið er allt ljóst nema trén sem eru svört og nakin. Augun í honum eru öll svört og hann riðar örlítið.

2. sena
Maðurinn er nakinn en það sést aðeins frá nafla og upp. Hann byrjar að gráta.

3. sena
Maðurinn er hættur að gráta. Hönd birtist skyndilega út frá rammanum og rífur af manninum þunna húfu og hverfur.

4. sena
Maðurinn er skyndilega orðinn moldugur frá toppi til táar. Hann riðar ennþá en stendur samt á sama stað.

5. sena
Maðurinn er orðinn enn skítugari og stendur nú inn í litlu herbergi með moldargólfi. Hendur hans eru fastar í gömlum, ryðguðum handjárnum.

6. sena
Sjónarhornið færist frá drullugum tám mannsins og upp. Hann er að pissa í stóra glerskál sem stendur á ójöfnu moldargólfinu.

7.sena
Hann er að tyggja. Hluturinn sem hann tyggir er svo stór að hann rúmast ekki allur í munninum. Maðurinn er undarlega sáttur, stoltur af sjálfum sér. Eins og honum hafi tekist að gera eitthvað rétt.

8. sena
Hann er að tyggja lítinn fugl. Fuglinn er á lífi því maðurinn hefur bara nagað í vængina. Hann tekur fuglinn úr munninum með handjárnuðum höndum og sýnir hvernig fuglinn helst á lífi þrátt fyrir að vera hálfétinn.

9. sena
Maðurinn sleppir hálfdauðum fuglinum í holu sem leiðir út úr moldarherberginu.

Svo vaknaði ég. Ég held að óskilgetið hugarfóstur David Lynch og Hitchcock hafi tekið sér bólfestu í kollinum mínum. Eða þá að ég svaf í herbergi með loftræstingu sem var svo hávær að það hefði allt eins getað verið hárþurrka í eyrunum á mér. Huggulegt.
Ég sá þetta fyrir mér eins og ljósmyndir á hreyfingu, svarthvítt og innilega hrollvekjandi. Stop motion? Mig langar að kvikmynda þetta.
Hver hefur lyst á fuglsunga?

No comments: