Saturday, April 26, 2008

Steríótýpur

Í dag, þegar ég hafði ekkert betra að gera meðan ég beið eftir næstu æfingu, fór ég að hugsa um steríótýpur. Ef ég ætti kost á því að vera steríótýpa (myndi varla segja að ég væri nú þegar ein, eða hvað?) myndi ég vilja vera ein af eftirfarandi:

Rithöfundurinn með úfið, ógreitt hárið, keðjureykjandi, pikkandi á ritvélina á milli þess sem hann rífur blaðsíður úr ritvélinni, gengur um í hringi í litlu, myrkvuðu herberginu og les upphátt textann. Kinkar annaðhvort sáttur kolli, brosir út í annað og kveikir sér í nýrri sígarettu eða kuðlar blaðinu saman, kastar í ruslakörfuna, rennir lófunum gegnum hárið og dæsir.

Brjálaði vísindamaðurinn sem hagræðir gleraugunum á nefinu, lyftir upp karöflu með grænum vökva og horfir á hana um stund. Tekur síðan upp aðra minni karöflu og byrjar skvetta úr henni í þá fyrri. Mikil sprenging og reykurinn gýs upp. Vísindamaðurinn lyftir upp karöflunni með báðum höndum og hlær illyrmislega.

Yfirkokkurinn sem gengur um eldhúsið, yfirlætislegur á svip, dýfir af og til smökkunarskeið í hina og þessa sósuna á meðan hinir kokkarnir bíða með öndina í hálsinum eftir dóminum. “Of sölt!”, “Of þunn!”, “Of soðin!” Kann að bera fram nöfn allra réttanna á lýtalausri frönsku og er sérfræðingur í eftirréttum á borð við soufflé og crémé brulée.

Stjórnleysinginn sem gefur skít í allt sem kemur honum ekki við og neitar að beygja sig undir hvers konar vald. Stendur fyrir háværum mótmælum gegn yfirvaldinu og óréttlætinu. Skiptir engu máli hverju hann klæðist, bara því sem honum áskotnast á hverjum stað. Engin plön fyrir framtíðina, eina sem skiptir máli er að vera frjáls undan oki yfirvaldsins.

Vínsmakkarinn sem ber korktappann úr flöskunni að nefinu og þefar hugsi á svipinn, hellir smá slurk í glas, lyftir glasinu gætilega til að skoða hvort vínið hafi réttan lit. Fær sér síðan lítinn sopa af víninu og veltir því um í munninum. Kinkar kolli til samþykkis eða fitjar upp á nefið með vanþóknunarsvip.


-sweet

Annars fór ég í tvær verslanir í dag og verslaði. Sem er óvenjulegt þar sem ég kaupi mér venjulega aldrei neitt.
Í Pennanum fann ég tvær bækur; Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl og Af ljóðum, ritstýrt af fyrrnefnum Eiríki. Líst mér ansi vel á báðar bækurnar og hlakka til lestursins.
Ætla samt fyrst að klára Glerhjálminn. Sú bók kom mér bæði á óvart og ég er ekki frá því að ég hafi orðið fyrir smá vonbrigðum (svona það sem af er bókinni).
Ég býst alltaf við of miklu af frægum bókmenntum, ætti kannski að halda mig bara við Andrés Önd, hann veldur mér aldrei vonbrigðum!

Svo lá leið mín í Skífuna, þar sem ég átti fimmþúsund króna inneign. Valið stóð lengi á milli Swan Lake - Tchaikovsky og Kind of Blue - Miles Davies.

Þangað til að ég rak augun í þessa snilld:



War of the Worlds: Tónlistin úr söngleiknum eftir Jeff Wayne. Alveg gúrkulega skemmtilegur diskur.

Svo hlustaði ég á Svanavatnið alla leiðina heim og þóttist vera Dmitry Yablonsky, sveiflaði höndunum án afláts og blístraði með.

Ég verð komin með sinaskeiðabólgu í fyrramálið.

Wednesday, April 23, 2008

Gleði, ást og hamingja!

Jafnvel þó ég eigi enn eftir æfingu í Borgarleikhúsinu, Sýninguna með stóru S-i, balletpróf, táskópróf og öll skólaprófin, þau eru reyndar bara þrjú talsins, þá gæti ég ekki verið fegnari núna.

Í gær kláraði ég Cunningham prófið og gekk, að ég held, bara ágætlega. Eftir að hafa legið í leti allan sunnudaginn rann upp fyrir mér um kvöldið að ég kunni í rauninni alls ekki æfingarnar og fékk létt panikkkast.
Því miður þjáist ég af hinum ógurlega "þetta-reddast" - sjúkdómi sem gerir mig kærulausa fram úr öllu hófi þegar ég ætti að vera að gera eitthvað af viti.

Ónytjungur

En prófið fór þó vel. Komst að því að ég mundi flestallar æfingarnar og klúðraði engu meiriháttar. Susönnu Cunningham-kennara tókst að létta lundina svo um munaði á meðan prófinu stóð. Brosti og kinkaði kolli án afláts.

Svo lauk ég loksins við kóreógrafíu-prófið í kvöld. Ég er búin að kvíða þessum degi í margar vikur núna. Og "þetta-reddast" - syndrómið kikkaði ekki inn fyrr en ég var byrjuð að dansa fyrir framan alla kennarana mína og prófdómara frá Laban í London. Ég var skjálfandi á beinunum, með æluna upp í kok og þurfti stöðugt að fara á klósettið fram að því.
Svo þegar út varið komið fékk ég það almesta spennufall sem ég hef nokkurn tímann upplifað. Ég hélt ég væri að fá aðsvif og gat varla labbað beint.

Þrátt fyrir að hafa klúðrað spurningunum eilítið held ég að mér hafi bara gengið ágætlega.
Mér fannst bara svo óþægilegt að svara spurningum og verja verkið mitt þar sem ég hafði í rauninni ekki hugmynd um hvað það var.
Reyndar var grunnhugmyndin sú að nota gallana mína í dansinn. Ódauðlegar setningar á borð við "Halldora, where are your arms?!?" og "Halldora, the focus of the eyes, where is it?!" dynja á mér í næstum því hverjum tíma, bæði kóreógrafíu og í tæknitímum. Sem varð til þess að ég kallaði verkið "Fyrir hendur mínar og augu/For my arms and eyes." Sú hugmynd virtist vera að falla í kramið og ég hélt virkilega að ég hefði "púllað þetta af." Þangað til að Andreas spurði mig um tónlistina sem ég notaði (Nanou2 með Aphex Twin af Druqks, yndislega yfirvegað lag). Í fyrsta lagi þá skildi ég ekki spurninguna en byrjaði samt sem áður að babla. Ég þurfti því að hætta í miðju kafi og hreinlega spyrja hvað hann meinti. Held samt að ég hafi náð að tala mig út úr þessu viðtali.

-Fjúff



Þá hefst enn eitt tímabilið þar sem ég hef ekki tíma til að vera til

jáveijágleðiástoghamingja!

Sunday, April 20, 2008

Geisla-Virkt!




Hvað get ég sagt? Flóki er skæður og mun ætíð vera skæður.....

-svo passið ykkur!

Saturday, April 19, 2008

Heimsendaspámaðurinn

Þetta er sögz, vesgú, kthnxbai:



Staðsetningin

Ég stend úti við gangstéttarbrúnina með skiltið mitt og horfi hugsi á máv sem situr makindalegur á ljósastaur handan við götuna. Hann horfir græðgislega á brauðpoka sem ung kona með nokkur börn heldur á. Hann bíður færis og um leið og konan kastar brauðsneiðinni hendist mávurinn af stað á eftir henni. Hann þarf samt að etja kappi við tvo fugla viðbót í baráttunni um brauðsneiðina áður en hann nær að næla sér í hana. Hann flýgur aftur að ljósastaurnum þegar hann hefur lokið sér af, ánægður með sjálfan sig.

Himininn er grámóskulegur og skýin hanga dimm og drungaleg, það fer áreiðanlega að rigna þá og þegar.

Eldri kona gengur framhjá mér með lítinn dreng í eftirdragi. Konan virðir mig ekki viðlits, hefur örugglega ekki einu sinni tekið eftir mér, en drengurinn starir stóreygur og er við það að opna munninn en áður en nokkurt orð sleppur út fyrir varirnar áttar konan sig á hvað er að gerast, grípur hann í fangið og hraðar sér á brott. Við drengurinn horfumst í augu þangað til að þau hverfa úr augsýn. Ég sný mér aftur að götunni og gríp fastar um skiltið mitt.

Skiltið

Skiltið mitt er í sannleika sagt heldur tilkomulítið, fátæklegt á að líta, svona við fyrstu sýn. Það er ekkert sérstaklega stórt en fer vel í hendi. Einhvern tímann var það fagurrautt en tímans rás hefur liturinn dofnað og er í dag meira í ætt við grábrúnan heldur en rauðan. Það er líka heldur veðurbarið og brotnað hefur upp úr því á nokkrum stöðum sem gerir textann illskiljanlegan öllum öðrum en mér. Mér þykir samt óendanlega vænt um það og ég myndi ekki skipta á því og neinu öðru skilti í heiminum. Við skiltið höfum verið samferða um þó nokkurt skeið núna. Hvenær og hvernig leiðir okkar lágu fyrst saman er ég búinn að gleyma, mér finnst jafnvel stundum að það hafi alltaf verið við hlið mér, staðfast, mér til halds og trausts. Og muni alltaf verða mér við hlið, alveg þar til yfir lýkur.

Hann

Á nóttunni gefst enginn tími til svefns. Þegar ég lít til baka þá man ég eiginlega ekki hvenær ég festi svefn síðast. Á nóttunni er það sem ég geri mér sífellt betur grein fyrir því ég er varla eins og fólk er flest. Á nóttunni fyllist hugurinn af honum. Á nóttunni tekur hann yfir og hugurinn er ekki lengur minn eigin, ég verð aðeins auðmjúkur áhorfandi. Til að byrja með var erfitt að sætta sig við að vera ekki við stjórnvölinn, að leyfa einhverjum öðrum að taka við og hafa enga stjórn á hugsunum sem þjóta framhjá, bakvið augun í mér. En með tímanum dofnar stoltið enda stenst ég hann ekki og máttinn sem hann býr yfir.

Upplifunin

Ég gæti lýst því sem þannig að mér sé stungið í samband við hið óendanlega. En einhvern veginn verða öll orð of máttlaus til að lýsa þessari upplifun, ólýsanleg. Hann leyfir mér að sjá þá hluti sem eru öðrum huldir. Myndir og hljóð þjóta framhjá, birtast hver á fætur annarri og hverfa aftur jafnskjótt og þær birtust. Svona gengur það uns dagur rennur. Og enn á ný er ég sannfærður um að ég sé að þjóna mínum tilgangi. Ég er að gera réttan hlut og sá hlutur er mikilvægur partur af tilverunni.

Samastaðurinn

Ég á lítinn samastað á risinu í gömlu, yfirgefnu skrifstofuhúsnæði. Herbergiskytran mín er lítil, myrk og fúkkalyktin hefur tekið sér varanlega bólfestu í veggjunum og húsgögnunum. Einstaka sinnum sleppur einn og einn sólargeisli inn um lítinn gluggaræfil en ég er ekkert að fárast yfir því.

Endirinn

Af og til stend ég mig að því að efast. Ég stari út í tómið og efast, mannlegur. Ég vil ekki vera mannlegur. Ég vil líkjast honum, hafinn yfir allt og alla. Algjörlega óháður veröldinni. En á sama tíma er veröldin háð manni, þarfnast manns jafn innilega og maður sjálfur þarfnast einskis frá veröldinni. En þegar öllu er á botninn hvolft er í raun tilgangslaust að efast. Heimsendir er í nánd.



-kaflaskiptingar eru bara afsakanir svo maður geti byrjað samhengislaust á nýjum stað!

Friday, April 18, 2008

Fallin

aaaaaarrggh..... neeeeiii.... get ekki...... slitið mig..... frá tölvunni....

......
......
.........verð......að......spila.........MINESWEEPER!

Sunday, April 13, 2008

Heimildarmyndir

Ég lifi fyrir heimildarmyndir og -þætti!

Ég er að horfa á mjög áhugaverða mynd um sögu Ballet Russes. Hef reyndar séð hana áður en mér fannst hún svo æðisleg að ég hoppaði hæð mína af kátínu þegar ég sá að einhver hafði komið henni inn á youtube. Eini gallinn er að hún er frekar löng og þar af leiðandi í 12 hlutum. En ætli maður leggi ekki það á sig bara til að sjá myndina?

- Fyrsti hluti af tólf fyrir áhugasama!

Ég var að átta mig á því að þetta er fyrsti dagurinn í tvær vikur sem ég er ekki á æfingu.
Gerði reyndar heiðarlega tilraun til þess í morgun, Guðbjörg hafði boðað okkur á aukaæfingu kl. 11 um morguninn.

Guðbjörg er afskaplega góðhjörtuð manneskja. Hún ber hag allra fyrir brjósti og vill að öllum líði vel en á meðan ýtir hún manni áfram og leyfir engum að gefast upp.

Ég ímynda mér að þetta hafi hún hugsað í morgun:

"Hmmm, ég er nú búin að vera svolítið hörð við stelpurnar undanfarnar daga. Ætli ég leyfi þeim ekki bara að eiga frí í dag?"

Málið var að henni láðist að segja nokkrum manni frá því....

Rekkjusvínið ætlar að halla sér

Saturday, April 12, 2008

Ég fékk líka að vera í útvarpinu

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4358801

Þarna fékk ég tækifæri á að blaðra í smástund um dans. Vei!

Monday, April 7, 2008

Lyklar

Þegar ég hugsa um það verð ég alltaf hrifnari og hrifnari af lyklum. Þeir eru einfaldlega svo heillandi. Svo fallegir á að líta en þjóna jafnframt mikilvægum tilgangi. Að passa upp á dótið mitt. Mitt mitt mitt mitt. Því fleiri lyklar sem hanga á lyklakippunni, því mikilvægari og valdameiri er maður. Jaa, svona í flestum tilfellum (mín lyklakippa samanstendur af húslyklum, hjólalásalykli, lyklum að Subway Hringbraut og Tannlæknastofunni Vegmúla 2).

Um daginn tók ég til í herberginu mínu og rakst þar á tvo lykla sem ég get ómögulega munað að hverju ganga. Þeir líta út fyrir að vera húslyklar en ég er búin að ganga úr skugga um að þeir eru ekki frá mér komnir.

Eina vitið væri að sjálfsögðu að henda þeim beint í ruslapokann, enda lítið hægt að gera við lykla sem hafa misst tilgang sinn. Ég vó þá í lófanum og starði á þá. Einhvern veginn fékk ég það ekki af mér að henda þeim. Ég panikkaði. Hvað ef ég myndi allt í einu að hverju þeir gengu og ég þyrfti nauðsynlega að nota þá? Þá væri ég sko í vondum málum.

Lyklarnir liggja enn óhreyfðir í bókahillunni minni.

* * * * * * * * * * * * * * * *


Allt í einu langaði mig í annað gæludýr...

Sunday, April 6, 2008

Sunnudagurinn 6. apríl 2008

Þá bætist við enn ein afsökunin sem ég hef fyrir því að þurfa ekki að gera hluti sem ég ætti í rauninni að hespa af.
Illu er best skotið á frest. Með tilheyrandi panikk- og vonleysisköstum. Éraðfílaða.


Og hvað gerir maður þegar dagarnir eru óhugnalega mónótónískir og manni finnst varla tími laus til að vera til?

Jú, maður notar tímann sem fer venjulega í að manna mann upp í að gera eitthvað af viti (í mínu tilfelli allavega, ég eyði meiri tíma í að sannfæra mig að koma mér að verki en að vinna verkið sjálft) í að lesa.

Sjálf er ég búin að lesa yfir mig það sem af er árinu og er orðin alveg óvenjulega rugluð í toppstykkinu. Þá sérstaklega af því mig dreymir alltaf atriði úr bókunum sem ég síðan rugla saman við raunveruleikann og allt er komið í kakó í hausnum á mér.

* * * * * * * * *

Fyrir ekki svo löngu pakkaði systir mín familíunni sinni niður í ferðatösku og fluttist búferlum til Spánar (flipp). Reyndar verða þau bara fjarverandi í 3 mánuði en þar sem Margrét er eina systkini mitt sem ég hef ekki lent í slagsmálum við er skiljanlegt að ég sakni þeirra.
Svo var það í 75 ára afmæli afa míns sem við fórum að ræða saman um þessa flutninga. Afi sagði okkur frá símtali sem hann átti við Þórð og Grím (MögguogHallasynir). Hann minntist eitthvað á að hann væri nú farinn að sakna þeirra og gauragangsins í þeim. Þá segir Þórður: "Sko, afi minn. Þú kaupir þér bara Skype og talar við okkur í gegnum það. Þá þarftu ekkert að sakna okkar!"

Jájá

Söknuður er bara ekki til lengur.

Jónas byltir sér í gröf sinni.

Í framtíðinni munu hámenntaðir prófessorar og fyrirlesarar ræða um þessa útdauðu tilfinningu, söknuð. Á meðan þeir tala um hina fornu tíma og áhrifin sem söknuður hafði á samfélagið munu nemendur dotta í tímum og þess á milli klóra sér í kollinum, óánægðir með að þurfa læra eitthvað sem þeir geta ekki fundið til eða skilið.

- og fyrst ég er í bjartsýniskasti get ég líka minnst á kreppuna, alnæmi, vatnsskort, gróðurhúsaáhrif og síhækkandi bensínverð -

* * * * * * * * * *

















Skítt með Skype! Saknisaknisaknisakn....

(Myndin er fengin að láni frá Halla )