Friday, May 23, 2008

Gleðigjafi

Mér barst ansi skemmtilegt bréf í dag. Hafði reyndar sorgarfréttir að færa en kom svo á óvart að ég hef legið í hláturskasti síðasta hálftímann. Bréfið er á þessa leið, orðrétt með öllum stafsetninga- og málfræðivillum:


frú Halldóra Kristín Eldjárn
Einarsnes 54
101 Reykjavík
Gullbringusýsla
Suðurland
Vinstri partinum af Íslandi
Ísland
Norðurlöndunum
Evrópu
Heiminum
Geiminum
ALLT

(ég tek fram að bréfið er allt skrifað með spegilskrift)

Kæra Halldóra.
Það er okkur mikill heiður að tilkynna þér (með speglaskrift, svona ef þú skildir ekki hafa tekið eftir því!) að þú hefur EKKI fengið inngöngu í galdraskóla. Þú ert því miður bara venjuleg stelpa. Við vonum að þessi niðurstaða hryggi þig ekki mikið (bara smá kannski?) og valdi þér ekki sálarkvöl. Við vonum að þú gerir bara það besta úr þessu og verðir góð manneskja þó þú getir ekki galdrað (svekk!)
Þú ert ágæt, alveg hreint ágæt!
Kær kveðja,

Dumbledor (
yfirstrikað) Gay Wizard 69

Needless to say þá er ég að farast úr forvitni núna.

Vakti reyndar upp sárar bernskuminningar. Ellefu ára afmælisdagurinn minn leið og ég var miður mín yfir því að hafa ekki borist bréf með boði um skólagöngu í Hogwarts, sent með uglu.
Ég hefði orðið fyrirtaks norn....

Æfing á eftir
Balletpróf á eftir
tjiiiiiiiiiill......

Monday, May 19, 2008

Skrímslabörn

Ég er búin að þræða í gegnum hverja myndasíðuna á fætur annarri að leita að myndum af vorsýningunni. Foreldrar mínir mættu myndavélalausir og fá skömm í hattinn fyrir vikið. Google hefur reyndar reynst mér traustur bakhjarl og er ég þá "officially" orðin ein af "Google-stalkerum" internetsins. Hér má sjá afrakstur erfiði míns:









Þið finnið höfunda myndanna með því að googla "Balletsýning vor 2008"
Góða skemmtun!



E.S.
Og þar sem ég er í balletstuði þá er hér myndband:


Ivan Vasiliev, sjúklega heitur gaur, að dansa hlutverk Gullna Skurðgoðsins úr "La Bayadére". Og já, hann er 18 ára...

Tuesday, May 13, 2008

Andvaka

Allt í lagi!

Ég gefst upp!

Hvers vegna er haldið upp á hvítasunnu?

Saturday, May 10, 2008

Ich bildete Sushi!

Hér má sjá afraksturinn:



Þetta var reyndar ekki jafn erfitt og ég var búin að ímynda mér. Þetta eru kannski ekki glæsilegustu makizushi-bitar í heiminum og alvöru sushi-chefs (itamae) myndu væntanlega fórna höndum og fara að skæla ef þeir sæju hversu ónákvæm miðjan á bitunum er, en þetta bragðaðist ágætlega, þó ég segi sjálf frá!









* * * * * * * * * * * * * * * * * * * * * * *
Annars er ládeyða hjá mér í augnablikinu. Gúrkutíð. Ætli ég leggist ekki bráðum svo lágt að skálda upp krassandi sögur úr mínu viðburðaríka lífi?

Sýningunni og öllum æfingum fyrir hana lokið og enginn ballet fyrr en á þriðjudaginn í næstu viku.
Sýningin gekk prýðilega. Okkur tókst loksins að dansa í gegnum "Thriller" snuðrulaust í fyrsta skipti á generalprufunni, degi fyrir sýninguna. Betra seint en aldrei, er það ekki?
Ég gargaði úr mér lungun og er enn að jafna mig í hálsinum. Allt fyrir listina?
Cunningham heppnaðist einnig ágætlega, ég hélt jafnvægi allavega bróðurpartinn af dansinum.
Mér fannst samt skemmtilegast í Jólakúlunni. Það er ekkert sem jafnast á við það að dansa í tutu
og með jafn litríka grímu í þokkabót. Ég veit ekki hvað það er, svo sannarlega ekki þægindin því ég gat naumast dregið andann þegar búið var að krækja honum saman í bakið, en manni líður svo glæsilega og allar hreyfingar verða þokkafyllri fyrir vikið. Ristarnar strekkjast meira, fæturnir lengjast og hækka og brosið breikkar. Ég skælbrosti, held ég, allan tímann og hugsaði ekkert út í skerandi sársaukann vegna táskónna og þeirri staðreynd að ég hafði varla andað allan tímann sem ég dansaði fyrr en ég var komin aftur baksviðs.

Ég er samt þakklát fyrir að þurfa ekki að klæðast tutu oftar en ég geri. Það myndi enda með ósköpum.




Myndin er af Hildi Björk, Sykurplómudís, sem dansaði sólóinn sinn eins og hetja þrátt fyrir að geta varla stigið í fótinn. Hún missteig sig illa á generalprufunni og hann bólgnaði upp og leit frekar skuggalega út. En maður lætur að sjálfsögðu ekki svona smáatriði slá sig út af laginu.

Myndinni er stolið héðan