Friday, November 14, 2008
Ég í hnotskurn?
"Jú, fjölskyldan er í raun fífl líka, allir eru fífl, nema kannski Hildur. Og ég að sjálfsögðu."
Í lífi Halldóru finnst þó eitt sem hún kann að meta öllu öðru framar - hún dansar ballett og það fjandi vel að eigin sögn. Hún lítur á dansinn sem veruleikaflótta þar sem líkami og hugur sameinast í algjörum samhljómi þar sem hún lifir þar sem henni líður best - innra með sjálfri sér - algjörlega fjarri umheiminum þótt hún standi í honum miðjum.
"Ef líkaminn leyfði myndi ég dansa hverja stund."
Aðspurð hvort hún eigi sér draum af einhverju tagi svaraði hún af einkennandi hroka. Sagðist í nótt hafa dreymt konu sem gréti svo mikið að hún drekkti alheiminum.
"Mig dreymir þegar ég sef eins og alla aðra. Annars kann ég ekki vel við að sofa - svefn er fyrir draumóramenn."
Halldóra er flóttahyggjukona. Í æsku fluttist hún sífellt milli staða vegna náms föðurs síns og líklega hefur það haft áhrif á hana. Síðan hún hóf framhaldsskólanám hefur hún flúið svo skóla og líkar viðveran í MH ekki sérstaklega vel.
"Já, ég verð víst bara að klára þetta, dansinn krefst þess."
eftir Ívar Erik Yeoman (og ég birti hér í ósvífnu leyfisleysi)
Verkefnið var að kynna bekkjarfélaga okkar. Þetta var einstaklega vandræðalegt verkefni og endaði því bara í tómri vitleysu.
Mér fannst lýsingin á mér alveg ofsalega fyndin. Ég hafði ekki hugmynd um að ég væri svona hrokafullt illmenni sem liti allt of stórt á sig.
Monday, November 10, 2008
Grunnhyggni
Saturday, November 8, 2008
Spark í rassinn
-Ég ætti helst ekki að vera að skrifa ritgerðir á þeim tíma
-Ég get bullað stanslaust út um rassgatið á mér um efni sem ég hef ekki hundsvit á
-Ég verð bitrari og fúlari eftir því sem líður á nóttina
Eftirfarandi eru lokaorð ritgerðarinnar. Svo slökkti ég bálreið á tölvunni og fór að sofa, blótandi samtíðarmönnum mínum í sand og ösku.
Samkvæmt Böðvari H. Steingrímssyni var það andleg óhollusta sem varð móður hans að bana. Andleg óhollusta sem Ríkið dældi í hana linnulaust gegnum tól andskotans, sjónvarpið. „Of mikil velsæld skapar vesæld.“ Við erum þiggjendur, tyggjendur, neytendur, þreytendur uppfullir af rusli og heyjum vonlaust vindmyllustríð við Tímann. Það þyrfti að drepa Tímann. Lífið í Rokklandi þolir engan tíma. Rokklendingar eru vélar. Vélar sem þarf að smyrja með óhóflegu sjónvarpsglápi og ruslfæði. Vélar sem eru svo djúpt sokknar í efnishyggjuna að ekkert annað kemst fyrir. Hver fer einn, afsíðis með sjálfum sér? Enginn. Það hugsar enginn lengur. Það þarf enginn að hugsa. Ekkert er lengur tært. Einhvern tímann hefur þó eitthvað verið tært. Fyrst það er gruggugt núna.
Hvaðan kemur tilhneigingin að horfa til baka þegar hart er í ári? Hvaða vit er í því að lifa í fortíðinni þegar samtíminn er jafnömurlegur og raun ber vitni? Ætlum við aldrei að læra af mistökum okkar? Sagan fer í hringi og sífellt er verið að reka fótinn í sömu misfelluna á gólfinu. Menn skammast sín fyrir samtímann. Finna honum allt til foráttu. Skáldin leggja hart að mönnum að líta til baka og sjá villu vegar síns. Og á meðan skáldin ydda skriffæri sín og kryfja söguna til mergjar, reyna að finna þessa misfellu sem orsakar ömurleikann, leika hinir nýríku lausum hala og grafa sér dýpri og dýpri gröf þar til þeir sjá hvorki tangur né tetur af misfellum fortíðarinnar.
Thursday, November 6, 2008
Monday, November 3, 2008
Ljóð
Preperation: relevé 5. pos
1-4 Plié devant, loka relevé 5. pos
5-8 Plié derriére, loka relevé 5. pos
1-4 Plié devant, relevé á la seconde
5-6 Passé, plié degagé fyrir framan
7-8 Rond fyrir aftan
1-4 Rond de jambe 4x, fjórða plié-relevé-fram
5-6 Plié turn á la seconde
7-8 Plié coupé arabesque
1-4 Penché
5-8 Plié relevé attitude 2x
1-2 Arabesque loka 5. pos
3-4 Passé plié fram
5-6 Fouetté enda attitude derriére
7-8 Élonger enda 5. pos
-Guðbjörg Astrid Skúladóttir
Ég felli tár yfir þessu ljóði. Þá aðallega vegna þess að mér er orðið svo djöfullega illt í tánum/með blöðrur/með blóð eftir öll relevé-in.
Ykkur er frjálst að vorkenna mér!
Annars felli ég tár af hlátri yfir þessari grein
E.S. Mér er alveg sama hvert kommurnar halla, sem er heldur sorglegt í ljósi þess að ég er búin með þrjá áfanga í menntaskólafrönsku. Skítur.
E.S. 2 Spurning: Er of seint að vera leið yfir að framleiðendur Bleach hafi skipt um theme-lag þegar komnir eru út tæpir 200 þættir en ég er bara á númer 30? Eða of snemmt, þar sem lagið á pottþétt eftir að breytast mörgum sinnum í viðbót? Geta þeir ekki bara haldið sig við upprunalegu lögin? Þó samkvæmt minni reynslu er lag nr.2 í anime-þáttum oftast skemmtilegra, því það er miklu harðara og með miklu, miklu dýpri og lélegri texta/þýðingu (ég kann ekki japönsku). Ergo, ég skal kaupa líf einhvers annars á túkall...

